Gróska í bókaútgáfu um fornminjar

Nú er gósentíð í bókaútgáfu um fornminjar og fornleifarannsóknir en margar bækur hafa komið út á síðustu árum og eru væntanlegar. Nýjasta dæmið er bók Hjörleifs Stefánssonar, Af jörðu, glæsilegt rit um íslensk torfhús. Af eldri bókum má nefna bók Steinunnar Kristjánsdóttur um uppgröftinn á Skriðuklaustri, bók Guðrúnar Sveinbjarnardóttur um uppgröftinn í Reykholti, Mannvist eftir Birnu Lárusdóttur, bók um uppgröftinn á Hofstöðum í ritstjórn Gavins Lucas og greinasafnið Upp á yfirborðið sem Fornleifastofnun gaf út.

Tímamót í útgáfu Archaeologia Islandica

Stórmerkum áfanga í sögu útgáfu um fornleifafræði á Íslandi var náð í sumar þegar rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom út í tíunda skipti. Við þessi tímamót tekur Orri Vésteinsson við ritstjórn af dr. Gavin Lucas sem hefur ritstýrt ArchIs frá upphafi. Sem fyrr eru margar spennandi og áhugaverðar greinar í nýjasta hefti ArchIs og má lesa útdrætti úr þeim hér.

Eigulegar bækur á bókamarkaði Forlagsins

Í byrjun september munu bækurnar Upp á yfirborðið, Hofstaðir og Norse Greenland fást með góðum afslætti á bókamarkaði Forlagsins. Markaðurinn fer fram í Bókabúð Forlagsins að Fiskislóð 39. Lesa má nánar um bækurnar Upp á yfirborðið og Hofstaðir hér og upplýsingar um efni bókarinnar Norse Greenland má finna hér